Ef þið viljið pissa á ykkur af hlátri ....

þá mæli ég með að þið kíkið á þetta.

http://www.asylum.com/2008/10/23/public-sign-fails-theyre-just-not-right/?icid=100214839x1212285858x1200700544

Ekki veitir af á þessum síðustu og verstu tímum.

Beini svo tilmælum hér með til kínverja að halda sig bara við kínverskuna og vera ekkert að reyna að þýða yfir á ensku!


JESUS LOVES U .......

Hvað er það með þessar litlu skítarellur sem fljúga hérna yfir all daga og skrifa í skýin ..... bókstaflega?!!

Eru þetta einhverjir fjárans vottar jehóva sem nenna ekki að labba á milli húsa og bögga fólk á eðlilegan máta af því að afköst per klst. eru ekki nægileg? Er þetta einn og sami gaurinn dag eftir dag eða tóku samtökin sig saman um kaup á flota af rellum sem fljúga yfir með reglulegu millibili?!

Í dag er það "GOD LOVES U."

Ji hvað ég er fegin. Hugsið ykkur hneykslið ef bara Jesús elskaði mig en ekki Guð. Ég meina, það væri svona svipað og ef Jón hataði Davíð .... en ekki pabbi hans! Allt of mikið conflict fyrir feðga sem vinna saman að því að eignast allt .. saman.

Mér er ekki vel við áróður sem þröngvað er upp á mig í mínu daglega lífi. Ef mig langar að heyra frá/um hvað Guð eða Jesú hafa að segja, hef ég kost á því að fara í kirkju eða lesa í Biblíunni. Að fá bókstaflega skilaboð frá þeim dag eftir dag af himnum ofan er aðeins of mikið fyrir minn smekk.

 

 

 

 


Vel við hæfi

"It was the best of times, it was the worst of times; it was the age of wisdom, it was the age of foolishness; it was the epoch of belief, it was the epoch of incredulity; it was the season of Light, it was the season of Darkness; it was the spring of hope, it was the winter of despair; we had everything before us, we had nothing before us; we were all going directly to Heaven, we were all going the other way."

  --  Charles Dickens

Að vera eða vera ekki ... á geðlyfjum!

Þetta er spurning sem ég er búin að vera að spyrja sjálfa mig að í þó nokkurn tíma núna og er ekki enn komin að niðurstöðu, en vegna þunglyndis hef ég þurft að styðja mig við þessa tegund lyfja í þónokkur ár núna með misjöfnum árangri, aukaverkunum og afleiðingum. Staðreyndin er nefnilega sú að erfitt er að ganga í gegnum það ferli að finna lyf sem bæði hjálpar manni að glíma við þennan sjúkdóm og gerir manni heldur ekki lífið óbærilegt vegna aukaverkananna sem  fylgja bæði með meðferð og eftir að henni lýkur, sbr. fráhvarfseinkenni.

Sumir kalla þessi lyf "gleðipillur" og halda að fólk sem nennir ekki að takast á við lífið "as is" poppi þeim eins og sælgæti til að komast í einhverja sæluvímu þar sem dansað er á rósum og svifið á bleikum skýjum alla daga .... mikill misskilningur! Að geta lifað lífinu án þess að falla ofan í svarthol og komast ekki upp úr því af sjálfsdáðum er allt og sumt sem ég bið um, að geta tekist á við hið daglega líf, fúnkerað eins og "normal" manneskja.

Og þá komum við okkur aftur að efninu, að vera eða vera ekki ....

Eftir að búið er að skoða upplýsingabæklinginn sem fylgja lyfjunum, sem "nota bene" taka 1/3 af plássinu í umbúðunum, þar sem lyfjaframleiðandinn telur upp allar hugsanlegar aukaverkanir sem til eru og þar meðtalið sjúkdóminn sjálfan sem aukaverkun inn á milli rugls, flökurleika, húðblæðinga, niðurgangs og/eða harðlífis (jamm ... í sömu línu), gláku, gulu, svefntruflana (auðvitað bæði of eða van), maníu, flogakasta, lifrasjúkdóma, sjóntruflana, óraunveruleikatifinningu, ofskynjana og fl. o.fl. o.fl (þetta er hið skemmtilegasta lesefni), þá spyr maður sjálfan sig ...?

Í rauninni er hjálp í bæklingnum og skiljanlegt að hann taki svona mikið pláss í pakkningunni, hann er hluti af meðalinu. Bara meðan ég les hann og ímynda mér sjálfa mig sitjandi á klósettinu með niðurgang og flogakast að reyna að teygja mig í klósettpappírinn sem er auðvitað frekar erfitt vegna sjóntruflananna, finn ég að lundin léttist og lyftist öll upp.

En þá eru það lyfin sjálf, eru þau "gleðipillur?"

Í fyrsta lagi getur það tekið upp að 4-6 vikum að finna verkun þess almennilega en á meðan fær maður allhressilegan skala af öllum mögulegum aukaverkunum sem gera það að verkum að maður verður ekkert svakalega vongóður um framhaldið. Eftir að hafa svo þraukað í einhvern tíma með svima, höfuðverki, beinverki, skjálfta, þreytu, ógleði, svitaköst, svefntruflanir og hægðatregðu á hæsta stigi, fer maður einn daginn að sjá einhverja glætu í myrkrinu og fer að líða örlítið betur .... verður jafnvel bara örlítið jákvæður þrátt fyrir allar aukaverkanirnar sem reyndar fara oftast minnkandi eftir því sem líður á meðferðina. Halelúja ....

En Adam má alls ekki vera of lengi í paradís og oft koma duldar aukaverkanir fram á seinni stigum. Allt í einu er vigtin farin að stíga óþægilega hratt upp á við og 15 kg. bætt á skrokkinn án þess að nokkur skýring finnist, bjúgur á andliti, höndum og fótum, og hægðir á 10 daga fresti er ekki alveg að gera sig. Síþreyta á daginn og svefnleysi á nóttunni, bein og höfuðverkir að gera út af við mann. Að líta út eins og Pillsbury kallinn og hafa orku á við níræða manneskju er ekki það sem ég skrifaði undir!

Ég ligg í gólfinu og langar að æla, sveitt eftir kófin sem ég fæ og skelf, yfirliðstilfinningin og óráðið sem ég er í veldur því að ég treysti mér ekki til að keyra bíl eða gera bara nokkurn skapaðan hlut. Rafstraumstilfinningin sem leiðir frá höfðinu á mér og í gegnum allann líkamann er að gera mig brjálaða ...... ég hætti á lyfjunum. Ég er eins og heróínfíkill í fráhvörfum og ræð ekki við mig, snappa á alla í kringum mig og brest í grátköst án nokkurs tilefnis.Ég hef enga stjórn á tilfinningum mínum né hugsunum og langar helst að skríða ofan í holu og aldrei koma aftur upp.

Þetta stóð ekki í bæklingnum ...

Ef svo vildi til að þú hittir loksins á lyf sem virkar vel fyrir þig án margra vandkvæða og þér finnst lífið vera komið á rétta braut og ert að vinna í þér og þínum málum, þá gæti þetta skeð; Búmm .... þruma úr heiðskýru lofti, lyfið hættir allt í einu að virka og þú ert komin aftur á byrjunarreit.

Þetta stendur ekki heldur í bæklingnum ...

Já það er víst ekki bæði hægt að fá kökuna og éta hana!

 

 

 

 

 


Ábending til hjólreiðamanna!

Eftir að hafa horft upp á miður vafasamar aðferðir við reiðhjólaiðkun síðastliðna viku vil ég endilega koma þessum ábendingum á framfæri.

Eigi skal hjóla í kringum sundlaug nema þú sért tilbúin að taka þér sundsprett með hjólinu, ert yfir 30 kg. í þyngd og hafir þol í að synda með hjólið að bakkanum og lyfta því upp úr sjálf (heyrirðu það dóttir góð?! .... betra að hlusta stundum á varúðarorð móður sinnar!)

Hjólreiðar á nóttu til á þröngum skógarstígum með vafasamt alkóhólmagn í æðum er ekki góður kostur! Frekar skal reiða hjólið heim á leið svo ekki verði árekstur þar sem tveir hjólreiðamenn sjá ekki hvorn annann vegna ölvunar og myrkurs. Markó ..... Póló ... aðferðin dugar ekki við þessar aðstæður.

 


Hér er drullublíða.......

NOT!!!!!!!!!

Sit með frosna sultardropa í nefinu sveipuð þykku prjónasjali og pikka á lyklaborðið í slow mo.

Svona er að vera reykingamaður í heiminum í dag .... o já já!

Flórída stendur ekki undir væntingum veðurfarslega þessa stundina en ekki má maður kvarta við þá sem heima á íslandi eru án þess að verða munnhögginn í kaf yfir vanþakklæti og aumingjaskap; "þú skalt nú bara ekkert vera að vorkenna þér yfir 12 stiga hita kjéllingin ef þú bara vissir hvað við þurfum að þola hér" ræðan, dynur yfir mann ef maður opnar á sér munninn og segir fólki hversu kalt er hérna núna .... hehehe hí á ykkur.

Langt um liðið síðan bloggað var síðast, veit ekki hvort ég muni nenna að halda því áfram reglulega en sjáum til. Fæst orð bera minnsta ábyrgð, best að hafa það þannig.

Kveðja á klakann.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband