Að vera eða vera ekki ... á geðlyfjum!
Mánudagur, 4. ágúst 2008
Þetta er spurning sem ég er búin að vera að spyrja sjálfa mig að í þó nokkurn tíma núna og er ekki enn komin að niðurstöðu, en vegna þunglyndis hef ég þurft að styðja mig við þessa tegund lyfja í þónokkur ár núna með misjöfnum árangri, aukaverkunum og afleiðingum. Staðreyndin er nefnilega sú að erfitt er að ganga í gegnum það ferli að finna lyf sem bæði hjálpar manni að glíma við þennan sjúkdóm og gerir manni heldur ekki lífið óbærilegt vegna aukaverkananna sem fylgja bæði með meðferð og eftir að henni lýkur, sbr. fráhvarfseinkenni.
Sumir kalla þessi lyf "gleðipillur" og halda að fólk sem nennir ekki að takast á við lífið "as is" poppi þeim eins og sælgæti til að komast í einhverja sæluvímu þar sem dansað er á rósum og svifið á bleikum skýjum alla daga .... mikill misskilningur! Að geta lifað lífinu án þess að falla ofan í svarthol og komast ekki upp úr því af sjálfsdáðum er allt og sumt sem ég bið um, að geta tekist á við hið daglega líf, fúnkerað eins og "normal" manneskja.
Og þá komum við okkur aftur að efninu, að vera eða vera ekki ....
Eftir að búið er að skoða upplýsingabæklinginn sem fylgja lyfjunum, sem "nota bene" taka 1/3 af plássinu í umbúðunum, þar sem lyfjaframleiðandinn telur upp allar hugsanlegar aukaverkanir sem til eru og þar meðtalið sjúkdóminn sjálfan sem aukaverkun inn á milli rugls, flökurleika, húðblæðinga, niðurgangs og/eða harðlífis (jamm ... í sömu línu), gláku, gulu, svefntruflana (auðvitað bæði of eða van), maníu, flogakasta, lifrasjúkdóma, sjóntruflana, óraunveruleikatifinningu, ofskynjana og fl. o.fl. o.fl (þetta er hið skemmtilegasta lesefni), þá spyr maður sjálfan sig ...?
Í rauninni er hjálp í bæklingnum og skiljanlegt að hann taki svona mikið pláss í pakkningunni, hann er hluti af meðalinu. Bara meðan ég les hann og ímynda mér sjálfa mig sitjandi á klósettinu með niðurgang og flogakast að reyna að teygja mig í klósettpappírinn sem er auðvitað frekar erfitt vegna sjóntruflananna, finn ég að lundin léttist og lyftist öll upp.
En þá eru það lyfin sjálf, eru þau "gleðipillur?"
Í fyrsta lagi getur það tekið upp að 4-6 vikum að finna verkun þess almennilega en á meðan fær maður allhressilegan skala af öllum mögulegum aukaverkunum sem gera það að verkum að maður verður ekkert svakalega vongóður um framhaldið. Eftir að hafa svo þraukað í einhvern tíma með svima, höfuðverki, beinverki, skjálfta, þreytu, ógleði, svitaköst, svefntruflanir og hægðatregðu á hæsta stigi, fer maður einn daginn að sjá einhverja glætu í myrkrinu og fer að líða örlítið betur .... verður jafnvel bara örlítið jákvæður þrátt fyrir allar aukaverkanirnar sem reyndar fara oftast minnkandi eftir því sem líður á meðferðina. Halelúja ....
En Adam má alls ekki vera of lengi í paradís og oft koma duldar aukaverkanir fram á seinni stigum. Allt í einu er vigtin farin að stíga óþægilega hratt upp á við og 15 kg. bætt á skrokkinn án þess að nokkur skýring finnist, bjúgur á andliti, höndum og fótum, og hægðir á 10 daga fresti er ekki alveg að gera sig. Síþreyta á daginn og svefnleysi á nóttunni, bein og höfuðverkir að gera út af við mann. Að líta út eins og Pillsbury kallinn og hafa orku á við níræða manneskju er ekki það sem ég skrifaði undir!
Ég ligg í gólfinu og langar að æla, sveitt eftir kófin sem ég fæ og skelf, yfirliðstilfinningin og óráðið sem ég er í veldur því að ég treysti mér ekki til að keyra bíl eða gera bara nokkurn skapaðan hlut. Rafstraumstilfinningin sem leiðir frá höfðinu á mér og í gegnum allann líkamann er að gera mig brjálaða ...... ég hætti á lyfjunum. Ég er eins og heróínfíkill í fráhvörfum og ræð ekki við mig, snappa á alla í kringum mig og brest í grátköst án nokkurs tilefnis.Ég hef enga stjórn á tilfinningum mínum né hugsunum og langar helst að skríða ofan í holu og aldrei koma aftur upp.
Þetta stóð ekki í bæklingnum ...
Ef svo vildi til að þú hittir loksins á lyf sem virkar vel fyrir þig án margra vandkvæða og þér finnst lífið vera komið á rétta braut og ert að vinna í þér og þínum málum, þá gæti þetta skeð; Búmm .... þruma úr heiðskýru lofti, lyfið hættir allt í einu að virka og þú ert komin aftur á byrjunarreit.
Þetta stendur ekki heldur í bæklingnum ...
Já það er víst ekki bæði hægt að fá kökuna og éta hana!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Spaugilegt, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir blogvináttu, sjáumst!
kær kveðja
Guðbjörg Erlingsdóttir 4.8.2008 kl. 12:19
Án þess að vita nokkuð um þunglyndið þitt þá langar mig að spyrja þig blákalt: Þarftu að vera á lyfjum eða er þetta eitthvað sem þú segir sjálfri þér til að cópa við lífið?
Sko ég er enginn sérfræðingur en ég þekki bæði af eigin reynslu og annara sem ég þekki að breytt mataræði og regluleg hreyfing gerir alveg helling. Ég sting upp á að þú farir í næstu bókabúð og finnir þér bókina Með lífið að láni eftir sálfræðinginn og lífsþjálfann Jóhann Inga Gunnarsson. Lestu hana. Í henni eru mörg heilræði sem hægt er að nota til að snúa hlutunum við.
Auðvitað ef það er eitthvað líkamlega að hjá þér þá er lyfjagjöf kannski eitthvað sem þú vilt halda þér við en svona þér að segja þá hef ég enga trú á gleðipillum. Þær eru óhollar fyrir líkamann þinn og draga þig í vítahring frekari lyfjagjafar. Ég veit um fólk sem er á lyfjum og lyfjum til að draga úr aukaverkunum fyrstu lyfjana og þriðju lyfunum til að cópa við aukaverkanir lyfja númer 2. Þetta mun á endanum ganga frá innyflunum í þeim og þá þurfa þau enn önnur lyf við því.
Það eru fullt af náttúrulegum leiðum til að cópa við þunglyndi. Hreyfing og rétt mataræði er stór hluti af því. Ég hef heyrt því fleygt að nær 80% af þessum andans kvillum sem við dílum við í dag væru læknanlegir með því að borða betur og hreyfa okkur meira. Sel það samt ekkert dýrara en ég keypti það... Virkar fyrir mig og flesta sem ég þekki.
Gissur Örn 4.8.2008 kl. 13:56
Athyglisverður pistill hjá þér ...
Gísli Hjálmar , 5.8.2008 kl. 22:25
Hljómar ekki vel.
Birgir Örn Birgisson 6.8.2008 kl. 21:54
Og já ég er hjartanlega sammála þér Gísli.....
Birgir Örn Birgisson 6.8.2008 kl. 21:56
Elsku hjartans dúllan mín!
Í fyrsta lagi, rosalega er ég glöð að sjá þig blogga aftur!
í öðru lagi, rosalega væri ég til í að geta hjálpað þér á e-n hátt. Það er allt of langt síðan ég hef heyrt í þér og dauðsakna þín og ykkar allra.
En já þessi lyf úff, þetta er svakalega óstabílt fyrirbrigði, sumt virkar á þessa og annað á hina og svo virkar bara ekkert á aðra :s
stay strong sista!!!!!
knúsar og góðir straumar
Selmingur
Selma 8.8.2008 kl. 09:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.